Merkilegt hvernig maður getur skrifað og tjáð sig um allt og ekkert (aðalega ekkert) á svona bloggi en svo þegar eitthvað reglulega stórt gerist, þá verður maður feiminn og veit ekki almennilega hvað maður á að segja. Hversu persónulegur vill maður í raun og veru vera við fólk sem maður kannski þekkir ekki neitt?
Ég geri mér grein fyrir því að tilfinningar og skap hefur og mun óhjákvæmilega skína í gegn um allt sem ég skrifa en þar sem ég hef ekki beinlínis verið í þessum aðstæðum áður veit ég ekki alveg hvernig ég á að meðhöndla þær, sérstaklega hér. Samt er einhvernvegin rangt að segja ekki neitt.
Amma mín dó í gær.
Nú gæti ég skrifað langa minningargrein, rakið það sem ég veit um líf hennar og dregið til hennar helstu kosti, hvað hún var góð í höndunum og hvað hún gat sagt skemtilega frá. Ég gæti líka talað um samband okkar, hvað ég var feiminn við hana þegar ég var lítil og hvað við urðum góðar vinkonur eftir því sem ég varð eldri. Eða hvernig henni þótti allt jafn merkilegt sem ég gerði hvatti mig til að gera allt sem ég vildi (þangað til að ég eignaðist mann og börn að sjálfsögðu).
Svo gæti ég náttúrilega líka, þó það megi nú öruglega ekki í svona minningargreinum, sagt ykkur hvað hún var stjórnsöm, þver og hvernig hún gat rifist og skammast eða látið neinn vaða yfir sig. Hún var samt líka fyndin og skemmtileg, og þrátt fyrir að vera hund-eldgömul einhver mesti töffari sem ég hef þekkt.
En ég ætla ekki að gera neitt af þessu. Bæði vegna þess að hún hefði ekki fílað það og líka vegna þess að þetta eru góðar sögur sem ég mun halda áfram að segja og þess vegna engin ástæða til að segja þær allar á einu bretti.
Þessvegna ætla ég bara að segja: mér fannst Amma mín skemmtileg, og ég mun sakna hennar.
Og svo tölum við ekki meira um það.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Æj elskan mín, ég samhryggist.
Snjósa
knús!
Samhryggist
Skrifa ummæli