miðvikudagur, desember 08, 2010

Óskalisti Caprivej 6, hvað langar okkur í í ár?

Heimilið:

Eitthvað fínt; dúka, servéttur, sparilegt og spennandi (Lin design, DUKA og Kokka er t.d góðar búðir).

Hildur Inga:

Föt í stærð 92-98
Leikföng af öllum stærðum og gerðum.
Púsl
Bækur
Tónlist
Fer að vanta sæng í stærð 100x140
Hefur heldur aldrei eignast kuldaskó (stærð23).

Anna og Hákon:
Föt
Nærbuxur og Sokka!!!
Matador söngleikinn á DVD
Matador spilið (uppúr þáttunum)

Bækur:
Takk ústrásarvíkingar!
Artemis Fowl og atlantisduldin (bæði á íslensku og á ensku)
Foreldrahandbókin
Ævisaga Gunnars Eyjólfssonar
Nigellu Lawson bækur

Tónlist:
Diskóeyjan


mánudagur, nóvember 01, 2010

Eins og hálfs árs!

Hildur Inga er átján mánaða í dag, það er merkilegur aldur. Ef hún væri á Íslandi færi hún í skoðun hjá lækni þar sem færi fram alment þroskamat og bólusetning. Svoleiðis eru hlutirnir ekki gerðir í DK þannig að hér á eftir koma niðurstöður úr heimatilbúnu þroskamati.
Hildur Inga 18 mánaða:

Hæð: 80 cm (mæligagn: tommustokkurinn hans pabba).
Þyngd: 12 kíló ca. (mæligagn: vigtin á pósthúsinu, í útigalla).

Augu: blá
Hár: ljósar krullur, með rauða enda og aðeins farið að dökkna í rótina.

Heilsufar: fínt bara, smá hor en ekkert til að kvarta yfir.

Almennt:

Hildur Inga er kát og skemmtileg stelpa, ákveðin og lætur engan vaða yfir sig, allra síst foreldra sína. Skapið er þó búið að koma okkur í vandræði þar sem nágranninn var farin að hafa áhyggjur af að við værum að pína barnið. Þann miskilning náðist að leiðrétta áður en hann hringdi á barnavernd en eitthvað hefur Hildur orðið vör við að þetta gengi ekki lengur, því hún hefur verið miklu afslappaðri síðan.

Svefnvenjur Hildar eru orðnar miklu rútíneraðri á haustmánuðum og sefur hún nú frá hálf átta til sjö (oftast) og svo einn og hálfan til tvo tíma á leikskólanum. Þetta kemur til af samstilltu átaki heimilis og skóla, því nú er farið að sussa á hana þegar hún vaknar óásættanlega snemma, (hún var nefnilega farin að vekja hin börnin á leikskólanum þegar hún vaknaði syngjandi kát eftir 40 min svefn og var svo orðin yfir sig þreytt um fimmleitið). Nú tekur hún sussið svo alvarlega að þegar hún núna sér mynd af sofandi barni byrjar hún að sussa í gríð og erg.

Hildi finnst best að sofa í sínu bóli með sínar tvær duddur og Kalla kanínustrák en er farin að vilja kúra pínu á morgnanna í mömmu og pabba bóli aftur. Hún strækaði nefnilega alveg á okkur í sumar og neitaði alveg að koma uppí ef hún vaknaði of snemma á morgnanna, enda allt of heitt og þröngt í stóra rúminu með tveimur fullorðnum.

Á sama tíma ákvað hún líka að það væri bara ekki kúl að knúsa foreldra sína og barðist um á hæl og hnakka ef það var reynt. Hins vegar þykir henni ósköp gott að fá morgun knús hjá Lene, uppáhalds kennaranum sínum og heilsar henni þannig á hverjum morgni. Þetta er þó allt að skána, og hún bæði knúsar og kyssir okkur og ef hún er í þannig stuði.

Borðsiðir Hildar eru ekkert til að hrópa húrra fyrir. Hún borðar sjálf flest allan mat og eins mikið eða lítið og hún vill, en hún á það líka til að henda matnum í gólfið og hella niður vatninu sínu bara til að sjá hversu langt hún drífur. Hún virðist haga sér betur á leikskólanum og þegar eru gestir svo við höfum einhverja von um að geta þegið matarboð þegar við komum til Íslands.

Helstu áhugamál mál Hildar Ingu er að leika, mikið, mikið, mikið. Henni þykir rosa gaman að leika úti, sérstaklega að róla og moka. Inni finnst henni flest allt skemmtilegt. Hún kann að byggja turn úr átta kubbum, lesa bækur og teikna (bæði á veggi og blöð). Hún er mikill verkfræðingur og dundar lengi við að raða saman púslum og pota dóti ogan í kassa.

Henni þykir óskaplega gaman að keyra vagninn sinn og geyma dót í honum og nýjasti leikurinn er að dunda sér með bollastell og eldhús dót. Hildur er mikill príliköttur, núna er hún sérstaklega að kanna fleti sem eru í ca. 70 cm hæð og stefnir hærra. Fín og gróf hreifingar eru semsagt á réttu róli og rúmlega það.

Máltakan gengur eðlilega fyrir sig að mestu. Hildur getur allt sem hægt er að ætlast til af 18 mánaða. Hún bendir á líkamsparta og segir "auja" þegar hún bendir á augað. Hún kann fullt af orðum og skilur langar setningar og virðist vera nokkuð jafnvíg á íslensku og dönsku. Eins og þekkt er hjá tvítyngdum börnum segir hún ekki mikið ennþá en skv.pedagógunum er hún á réttu róli í máltöku miðað við dönsk börn. Talmeinafræðingurinn móðir hennar er hinsvegar spennt að sjá hana í samanburði við íslenska jafnaldra.

Heimurinn hennar Hildar Ingu er ósköp lítill og rólegur. Hann samanstendur af Caprivej með pabba og mömmu, og leikskólanum, með Lene, Louise og Mattilde og öllum krökkunum. Svo á hún líka ömmur og afa sem búa í tölvunni og svo er stundum ágætis fólk sem sefur í sófanum og nennir að leika. Maður hefði haldið að svona einangrun gæti valdið mannafælu og óöryggi en svo er ekki. Hildur tekur öllum vel og virðist þekkja sitt heimafólk, enda á hún fullt albúm af myndum með mikilvægustu andlitunum.

Við erum samt óskaplega spennt að komast með hana til Íslands og leyfa henni að hitta fólkið á myndunum og sjá hvernig hún bregst við, en þangað til líkur þessari samantekt eins og Hildur Inga gerir þegar í hvert sinn sem hún fer út úr herbergi..."hej hej" og smá vinki.

föstudagur, júlí 30, 2010

Hildur vandræðabarn.

Hildur Inga hefur fengið viðurnefni á leikskólanum, "den lille bandit"! Henni þykir ákaflega gaman þar og kennararnir eru flestir ef ekki allir ógurlega skotnir í henni. Þess vegna kemst hún kannski upp með meira en er kannski hollt fyrir fyrir litla stúlku.
Það sannaðist í dag, því þegar við kumum að sækja hana í dag var búið að setja hliðið á milli vuggestuen (þar sem litlubörnin eru) og börnehaven (þar sem stóru börnin eru). Þetta hlið er oftast opið því það er mikið frelsi á leikskólanum og börnunum er frjálst að fara á milli deilda á leiktíma. Hildur Inga nýtir sér þetta óspart og er mikið á flakki á daginn, þess vegna er hún þekkt um allt hús.
Í dag skrapp hún yfir á stóru deildina í heimsókn og komst í tússliti. Þegar við sóttum hana var hún öll út krotuð og okkur tjáð að hún hafi verið gerð brottræk af stóru deildinni fyrir skemdarverk. Hún hafði s.s skroppið yfir í heimsókn, komist í tússliti og litað stórt listaverk á gólfið hjá þeim. Þegar kennarinn kom og stoppaði hana af brosti hún bara til hennar og hélt áfram. Í kjölfarið var henni fylgt yfir á vöggustofu álmuna og lokað á milli.
Sagan af Hildi og listaverkinu var fljótlega komin um allt hús og við heyrðum nokkrar útgáfur af henni á leið út. Kennararnir voru þó sammála um að það væri allt of freistandi að geyma tússliti í seilingarfjarlægð fyrir lítil börn. Svo finnst mér líka klaufaskapur að hafa ekki blöð einhverstaðar nálægt, því Hildur leitar nefnilega að blöðum til að teikna á ef hún kemst í liti.

sunnudagur, júlí 18, 2010

Hildur Inga næstum 15 mánaða...

...elskar leikskólann sinn.
...borðar allt ef það er sósa með því.
...stendur á tám, bendir á bumbu og tásur og veit að maður notar bara einn lykil til að opna dyr.
...gerir hreyfingar við "3 litlir apar sátu uppí tré".
...segir bumva (bumba), brrrr (bíll), buvrr (fugl) já /b/ er uppáhalds hljóðið hennar.
...Þykir rennibrautir og rólur stórkostlegar uppfinningar.
...raðar saman og tekur í sundur.
...finnst gaman að æfa sig í að klæða sig í föt.
...kemur með föt og skó ef hún vill fara út.
...borðar sjálf með gafli og skeið.
...er komin með nokkuð flókinn dansstíl.
...flakkar, skoðar og rannsakar.
...finnst gaman að tilla sér á passlega stóla.
...talar dönsku.
...notar tvo putta til að benda á tvo hunda.
...er skó og snuddu fíkill.
...prílar upp á allt, allstaðar.
...leikur með bolta og bíla.
...er glöð og kát og afskaplega skemtileg.

mánudagur, maí 10, 2010

Framhald á morgun, nokkrum vikum seinna.

Leikskóla mál Hildar hafa aldeilis snúist á haus síðustu vikur.
Þegar ég hafði nýlokið við að setja inn síðustu færslu barst okkur bréf þess efnis að Hildur Inga hefði fengið pláss á óskaleikskólanum okkar 10 maí. (Sá sem hún var byrjuð á var bara hugsaður sem tímabundið). Við höfðum ekki búist við þessu fyrr en í haust en ákváðum að þyggja plássið þrátt fyrir finnast erfitt að rífa hana burt af hinum staðnum svona nýbyrjaðri.
Hildur hélt þó áfram í aðlögun á gamla staðnum og undi sér þar við leik og að hræða kennarana næstu vikur. Aðlögunin gekk rosalega vel fyrstu vikuna en svo tók Hildur hið klassíska "nei, komon á ég að vera hér á hverjum degi!!!" bakslag og reyndi að gera öllum það ljóst að það væri hún alls ekki til í, stjórnsöm eins og mamma sín sjáiði til. Vika tvö var þess vegna ansi erfið en svo var bara svo gaman að leika við alla krakkana að hún mátti bara alls ekki vera að því að stjórna.
Hildur reyndist hafa fengið príl gen föður síns og gengu því kennararnir á eftir henni með hjartað í buxunum til að grípa barnið þegar hún dytti, sem hún gerði oft. Við heyrðum orð eins og óttalaus og hættuleg en best fannst mér orðið udforskende, sem þýðir "einhver sem kannar, rannsakar og skoðar" mér þykir það eiga vel við hana.

Í dag byrjaði Hildur Inga svo á nýja leiksólanum. Hann heitir Hundredemeterskoven eftir skóginum í ævintýrum Bangsímons og deildarnar heita allar eftir persónum úr bókinni. Hildur er á Tígra deild, sem á vel við því mig minnir að hann hafi verið ansi aktífur sjálfur.
Ég var ansi stressuð fyrir þessari aðlögun (var alveg róleg síðast) því mér fannst við svolítið vera að henda henni út í djúpulaugina, þetta er nefnilega alvöru leikskóli. Þarna eru börn frá eins árs og upp í 6 ára og það er mikill samgangur á milli deildanna, s,s ekki bara bómullarsmábörn eins og á hinum staðnum. Hildur er því bæði minnst og yngst.
Hildur Inga er hinsvegar töffari og rúllaði fyrsta deginum upp. Henni var alveg sama hvort við værum þarna eða ekki, lék sér eins og herforingi og stakk síðan af til að kanna restina af húsinu með stelpna stóð (og einn kennara á eftir sér). Við sjáum til hvernig gengur á morgun, en so far so good.
Mér líður pínu eins og ég sé komin heim á Garðaborg á fallegum sumardegi og er miklu sáttari við þennan stað heldur enn hinn, þó hann hafi ekki endilega verið slæmur. Hér fara börnin út í öllum veðrum og þrátt fyrir að húsið sé stút fullt af börnum sem leika sér í hverjum krók og kima eru allir svo glaðir og uppteknir að lætin verða ekki yfirþyrmandi og andrúmsloftið létt. Svo sýndist mér foreldrarnir voða kátir líka.

miðvikudagur, apríl 14, 2010

Aðlögun dagur 3

Hildur Inga heldur áfram að brillera á leikskólanum í gær fórum við frá henni í tæpan klukkutíma og það var ekkert mál og í dag skildi ég hana eftir kl 9 og svo var hún sótt kl 11. Á þeim tíma hafði hún tekið þátt í söngstund, borðað ávexti, málað eitt málverk og borðað vel af grjónagraut alveg sjálf. Hún var voða glöð að sjá pabba sinn en var samt ekkert að tapa kúlinu neitt þegar hann kom.
Kennararnir eru voða hrifnir af Hildúú og hefur hún strax fengið sína fyrstu umögn: örugg, sjálfstæð og forvitin. Á morgun ætlar Hildur að leggja sig með hinum börnunum og við erum spennt að sjá hvort hún heldur áfram að vera á spariskónum hvað svefnin varðar því hún á það til að vera hundleiðinleg með svoleiðis hérna heima.

Framhald á morgun.

mánudagur, apríl 12, 2010

Hildur í dag.

Að halda úti bloggi í þeim eina tilgangi að geta birt gjafa óskalista fyrir hver jól og afmæli kann að virðast yfirborðskennt og gráðugt, en það virkar að gefa út óskalista, so there! Þess vegna heldur þessi síða áfram að vera til, og ég hef m.a.s stundum sett in færslur í nóvember svo það sé ekki eins áberandi þegar óskalistinn kemur um miðjan desember.

Síðan Hildur Inga fæddist hefur hinsvegar reynst hentugt að skrifa ævintýri hennar hingað inn því það auðveldar helstu aðdáendum hennar að fylgjast með. Svo týnist það líka síður. Hinsvegar er afskaplega létt að tapa þræðinum og þess vegna hefur ekkert verið skrifað síðan um jól.

Hvernig segir maður svo frá helstu atburðum síðustu þriggja mánaða tæplega ársgamals barns í stuttu máli? Það er einfaldlega ekki hægt. Þess vegna ætla ég bara að lýsa Hildi eins og hún er í dag.

HIldur Inga er 11 mánaða og 11 daga gömul. Hún kann að labba og príla, segja mnamnam (matur) og abba (mamma og pabbi). Hún kann líka að benda og standa á tám (ef hún heldur sér í). Hún er komin með þrjár tennur og rauði liturinn er allur að vaxa úr hárinu á henni. Hún á glænýja göngu sandala og er með nýklipptan topp.
Hildur er nokkuð örugg með sig. Hún verður sjaldan feimin og ef það gerist þá stendur það stutt yfir. Hún getur verið óskaplega frek en er oftast góð og glöð og núna er hún með kvef og hálsbólgu.

Í morgun byrjaði hún á leikskóla. Henni fannst það æði. Hún var snögg að rífa dótið sem hin börnin voru að leika með og pabbi hennar var við það að rifna úr stolti þegar litla barnið hans drakk sjálf úr venjulegu glasi án þess að sulla (eins og oftast). Hildur var ekki lengi sigta út kennarana og valdi sér fljótt einn til að eiga fyrir sig. Hún kastaði sér nánar til tekið oft í fangið á henni og vildi helst ekki fara frá henni þegar komið var að heimferð. Við hlökkum s.s mikið til að fara aftur á morgun, stay tuned!

(Fyrir leikskólanördana: Danir gera þetta alveg eins og við, aðlögun tekur rúma viku þar sem viðvera foreldra minnkar smátt og smátt. Hildur fær að hafa myndir af fjölskyldunni uppi á vegg og öll þau hjálpargögn sem hún kann að þurfa fyrstu dagana.)

föstudagur, janúar 01, 2010

Hátíð í bæ

Á Caprivej voru hátíðarnar kvaddar í kvöld með þriggja rétta máltíð að hætti húsins. Við drógum fram sparistellið, elduðum okkur humar og nautasteik og borðuðum á náttfötunum. Erum í raun enn að borða því ísinn er ekki tilbúin.
Áramótin voru haldin með ró og spekt Fórum í mat til vina okkar, en af því að við erum svo stressaðir foreldrar þá vorum við komin heim fyrir miðnætti. Ég fylgdist því með flugeldunum af svölunum hjá mér, innvafin í teppi og fékk heilmikið af búmmi í hjartað og lét mér verða aðeins kallt eins og ég geri alltaf. Á næsta ári ætla ég að vera tilbúin með heitt súkkulaði og ristað brauð eins og amma hafði alltaf og þá þarf hef ég eiginlega ekkert heim að sækja yfir áramótin. Gátum meira að segja horft á skaupið!
Jólin voru góð en kannski of mikið nýtt í einu fyrir eina hátíð. Þrátt fyrir að hafa haldið í allar helstu jólahefðir (m.a hangikjöt, laufabrauð, rjúpur og jólamessu) þá er allt öðruvísi að halda jól í öðru landi. Ég hlakka mikið til á næsta ári því þá verðum við búin að gera þetta allt áður og Hildur orðin stærri og ekki jafn hissa á þessu öllu.
Við bjuggumst nú við því að Hildur handóða færi yfirum af gleði með allan pappírinn og slaufurnar, svo ekki sé minnst á jólatréð. Það var þó ekki svo. Hún sá ekki jólatréð og varð bara feimin þegar henni voru gefnir pakkar sem hún mátti tæta. Hinsvegar var hún mjög hrifin af öllum gjöfunum sínum. Hún virðist vera mikil dúkku stelpa, sérstaklega vegna þess að það má rífa í hárið á þeim og pota í augun.
Hildur reyndi s.s eftir bestu getu að leiða hátíðarhöldin hjá sér. Það er fyrst núna, rúmlega viku seinna sem hún sýnir jólaskrautinu einhvern áhuga, þá sérstaklega einni kúlu sem hún tekur stundum af jólatrénu og skoðar gaumgæfilega. Hún fer samt svo rólega að þessu að ég hef það á tilfinningunni að hún myndi skila henni aftur ef hún gæti.
Aðal atriðið var þó samt að afi og amma komu í heimsókn yfir jólin. Það þótti Hildi frábært, enda löngu komin með leið á foreldrum sínum. Hún var svo glöð að sjá þau koma eftir götunni í eitt skipti að hún henti sér á rúðuna og skríkti upp yfir sig. Foreldrum hennar þótti þetta líka mikil búbót og gátu m.a.s lagt sig að degi til, mjög kúl.

Næst á dagskrá eru hinsvegar próf og ritgerðarskil hjá mér, tiltekt og pökkun á skrauti hjá Hákoni og strangar stöðuæfingar hjá Hildinni. Já, og svo teljum við niður í Íslandsferð sem verður eftir 11 daga. Mikil gleði sem sagt.