föstudagur, janúar 01, 2010

Hátíð í bæ

Á Caprivej voru hátíðarnar kvaddar í kvöld með þriggja rétta máltíð að hætti húsins. Við drógum fram sparistellið, elduðum okkur humar og nautasteik og borðuðum á náttfötunum. Erum í raun enn að borða því ísinn er ekki tilbúin.
Áramótin voru haldin með ró og spekt Fórum í mat til vina okkar, en af því að við erum svo stressaðir foreldrar þá vorum við komin heim fyrir miðnætti. Ég fylgdist því með flugeldunum af svölunum hjá mér, innvafin í teppi og fékk heilmikið af búmmi í hjartað og lét mér verða aðeins kallt eins og ég geri alltaf. Á næsta ári ætla ég að vera tilbúin með heitt súkkulaði og ristað brauð eins og amma hafði alltaf og þá þarf hef ég eiginlega ekkert heim að sækja yfir áramótin. Gátum meira að segja horft á skaupið!
Jólin voru góð en kannski of mikið nýtt í einu fyrir eina hátíð. Þrátt fyrir að hafa haldið í allar helstu jólahefðir (m.a hangikjöt, laufabrauð, rjúpur og jólamessu) þá er allt öðruvísi að halda jól í öðru landi. Ég hlakka mikið til á næsta ári því þá verðum við búin að gera þetta allt áður og Hildur orðin stærri og ekki jafn hissa á þessu öllu.
Við bjuggumst nú við því að Hildur handóða færi yfirum af gleði með allan pappírinn og slaufurnar, svo ekki sé minnst á jólatréð. Það var þó ekki svo. Hún sá ekki jólatréð og varð bara feimin þegar henni voru gefnir pakkar sem hún mátti tæta. Hinsvegar var hún mjög hrifin af öllum gjöfunum sínum. Hún virðist vera mikil dúkku stelpa, sérstaklega vegna þess að það má rífa í hárið á þeim og pota í augun.
Hildur reyndi s.s eftir bestu getu að leiða hátíðarhöldin hjá sér. Það er fyrst núna, rúmlega viku seinna sem hún sýnir jólaskrautinu einhvern áhuga, þá sérstaklega einni kúlu sem hún tekur stundum af jólatrénu og skoðar gaumgæfilega. Hún fer samt svo rólega að þessu að ég hef það á tilfinningunni að hún myndi skila henni aftur ef hún gæti.
Aðal atriðið var þó samt að afi og amma komu í heimsókn yfir jólin. Það þótti Hildi frábært, enda löngu komin með leið á foreldrum sínum. Hún var svo glöð að sjá þau koma eftir götunni í eitt skipti að hún henti sér á rúðuna og skríkti upp yfir sig. Foreldrum hennar þótti þetta líka mikil búbót og gátu m.a.s lagt sig að degi til, mjög kúl.

Næst á dagskrá eru hinsvegar próf og ritgerðarskil hjá mér, tiltekt og pökkun á skrauti hjá Hákoni og strangar stöðuæfingar hjá Hildinni. Já, og svo teljum við niður í Íslandsferð sem verður eftir 11 daga. Mikil gleði sem sagt.