mánudagur, október 30, 2006

Jólin mín byrja...

Eins mikið og ég er sammála því að verslanir byrji ekki að blasta jólalög og hengja upp jólaskraut áður en haustið er einusinni búið, þá get ég einhvernvegin ekki fengið það af mér setja upp þennann blessaða "jólin mín" borða á bloggið mitt. Það væri kannski öðruvísi ef ég væri heima (þetta er einhvernvegin miklu agressívara þar), en hérna gleðst ég yfir hverju merki þess að desember sé á næsta leiti. Ég viðurkenni reyndar að jólasmákökurnar, dagatölin og föndurdótið í nettó fer pínu í taugarnar á mér, einfaldlega afþví að þetta er orðið svo sjúskað eithvað í lok nóv. og byrjun des. En mér finnst yndislegt að sjá að Illum er byrjað að hengja upp seríur og þeir eru byrjaðir að gera skautasvell á Kongens Nytorv.

Ég byrja neblega að undirbúa jólaundirbúninginn í nóvember.

föstudagur, október 27, 2006

Ég hef tekið ákvörðun!

Þegar ég verð stór og get keypt stóra fallega húsið mitt, á það hús að vera með stóru eldhúsi sem er hægt að borða í og með stórum gluggum sem sólin skín innum. Í þessu eldhúsi ætla ég svo að sitja á sunnudagsmorgnum, drekka kakó og borða ristað brauð á meðan ég les blöðin og spjalla við Hákon.
Nákvæmlega svona voru morgnarnir okkar á meðan við gistum í Barmahlíðinni (þegar ég segi morgnar, meina ég auðvitað hádegi því við fórum alltaf svo sent að sofa, en þannig á það líka að vera á sunnudögum). Ég hef átt tvö eldhús um ævina, og innum bæði skein jú reyndar sólin á morgnanna en þar var hinsvegar ekki hægt borða, svo þessi upplifun var allveg ný fyrir mér. Og mikið sem þetta var notalegt.

Annað sem var notalegt var að sofa í rúmi sem var 2x2, nóg plás til að brölta fram og til baka og liggja þvers og kruss. Ég mun ekki getað litið rúmið mitt réttu auga eftir þessa viku. Stórt rúm er sem sagt líka komið á lista yfir framtíðaróskir.

sunnudagur, október 15, 2006

Heyrðu já!

Ég er kominn heim, einusinni enn. Í þetta skiptið stoppa ég í tíu daga (fer heim 23.) og afþví að ég á svo æðislegann frænda, búum við Hákon í Barmahlíðinni. Þannig að það er hægt að koma í heimsókn og allt!
Ég hef þegar hafist handa við að borða íslenskan mat og klappa ketti og kærasta svo allt stefnir í góða Íslandsdvöl.

sunnudagur, október 08, 2006

Hænan og fjöðurin

Maður getur nú svosem sagt sér það sjálfur að það kunni að spinnast upp kjaftasögur þegar sést til kærustupars koma saman út af klósetti í miðju boði. Jafnvel þó að maður hafi bara skroppið inn til þess að laga sokkabuxurnar sínar og ákveðið að pissa í leiðinni :-)

miðvikudagur, október 04, 2006

Merkilegt hvernig maður getur skrifað og tjáð sig um allt og ekkert (aðalega ekkert) á svona bloggi en svo þegar eitthvað reglulega stórt gerist, þá verður maður feiminn og veit ekki almennilega hvað maður á að segja. Hversu persónulegur vill maður í raun og veru vera við fólk sem maður kannski þekkir ekki neitt?
Ég geri mér grein fyrir því að tilfinningar og skap hefur og mun óhjákvæmilega skína í gegn um allt sem ég skrifa en þar sem ég hef ekki beinlínis verið í þessum aðstæðum áður veit ég ekki alveg hvernig ég á að meðhöndla þær, sérstaklega hér. Samt er einhvernvegin rangt að segja ekki neitt.
Amma mín dó í gær.
Nú gæti ég skrifað langa minningargrein, rakið það sem ég veit um líf hennar og dregið til hennar helstu kosti, hvað hún var góð í höndunum og hvað hún gat sagt skemtilega frá. Ég gæti líka talað um samband okkar, hvað ég var feiminn við hana þegar ég var lítil og hvað við urðum góðar vinkonur eftir því sem ég varð eldri. Eða hvernig henni þótti allt jafn merkilegt sem ég gerði hvatti mig til að gera allt sem ég vildi (þangað til að ég eignaðist mann og börn að sjálfsögðu).
Svo gæti ég náttúrilega líka, þó það megi nú öruglega ekki í svona minningargreinum, sagt ykkur hvað hún var stjórnsöm, þver og hvernig hún gat rifist og skammast eða látið neinn vaða yfir sig. Hún var samt líka fyndin og skemmtileg, og þrátt fyrir að vera hund-eldgömul einhver mesti töffari sem ég hef þekkt.
En ég ætla ekki að gera neitt af þessu. Bæði vegna þess að hún hefði ekki fílað það og líka vegna þess að þetta eru góðar sögur sem ég mun halda áfram að segja og þess vegna engin ástæða til að segja þær allar á einu bretti.

Þessvegna ætla ég bara að segja: mér fannst Amma mín skemmtileg, og ég mun sakna hennar.

Og svo tölum við ekki meira um það.

mánudagur, október 02, 2006

HeimsóknHákon kom heim til þess að fylla á ísskápinn fyrir mig.og við bökuðum pönnukökur og buðum fullt af fólki (aðeins of mörgum reyndar, þurfum að eignast fleiri stóla.)


Svo, daginn eftir fórum við í laaangan göngutúr, og það kom rosaleg rigning


En það var allt í lagi, því við vorum með regnhlíf.

(hmm átti þessi færsla kannski betur heima á barnalandi ? "í dag fórum við mamma...")