föstudagur, febrúar 04, 2011

Desember

Hildur átti ósköp bágt lengst af í desember. Hún tók með sér gubbupest frá Íslandi og var nokkra daga að losa sig við hana. Hún varð hræðilega slöpp, fannst ógeðslegt að gubba og gat hvorki hreyft legg né lið eftir verstu syrpurnar. Svo þegar það var yfirstaðið tók önnur maga pest við sem hvarf aldrei alveg og endaði í sveppasýkingu með tilheyrandi óþægindum og pirringi. Ljósið í myrkrinu var Pó dúkka sem amma gaf sjúklingnum og Hildur tók með sér í bólið strax sama kvöld og er hann þar enn (þegar ég segi ljósið í myrkrinu þá meina ég það bókstaflega því Pó er næturljós, og þegar ýtt er á bumbuna á honum/henni/því lýsir hann).
Eitt skemmtilegt sem gerðist í desember var þegar henni var boðið út að borða í tilefni af afmæli móður sinnar. Það var stórkostlega gaman. Bæði fékk hún að lita, sem er best í heimi, og svo borðaði hún á sig gat af matnum sem henni var gefin. Best var samt þegar eftirrétturinn var borinn á borð. Við pönntuðum okkur súkkulaðiköku og ís og svipurinn á Hildi var óborganlegur þegar hún sá hann. Hún ljómaði eins og sólin og galopnaði munninn og lét mata sig á herlegheitunum. Það er vert að minnast þess í þessu samhengi að Hildur Inga hefur ekki verið mötuð síðan hún var níu mánaða!


Stuttu seinna fékk Hildur Inga jólafrí og það var voða voða gott. Í fyrsta skipti naut hún þess að vera heima hjá sér að kúra og dunda, og bað ekki einu sinni um að koma með ef annað okkar skrapp út. Það var augljóst að hún var orðin langþreytt eftir veikindi og ferðalög og þurfti á hvíldinni að halda. Við áttum því góðan tíma saman í að undirbúa jólin og svo bættust Amma og Afi við með tilheyrandi gúmmelaði og næturpössunum. Hildur sefur nefnilega hvergi jafn vel og í hjá ömmu í afabóli (afi sefur í sófanum).

Svo komu jólin.

Hildur Inga hjálpaði til við að skreyta jólatréð á Þorláksmessu og fram á aðfangadag, því það var alltaf eitthvað sem mátti betur fara. Aðfangadagur leið svo eins og aðrir dagar með mikilli inniveru, teiknimyndum cocopops og öðru sem tilheyrir jólunum. Um kvöldið komu svo afi og amma og Hildur sýndi þeim jólatréð og lét leika við sig. Hildur átti æðislegt kvöld. Hún skyldi reyndar ekki afhverju fólk var alltaf að borða kvöldmat aftur og aftur (forréttur og aðalréttur) og borðaði lítið en dundaði sér staðin við að setjast, standa á og hoppa af stórum kassa sem stóð undir jólatréinu (þegar betur var að gáð leyndist í kassanum þetta fína dúkkurúm). Svo varð hún líka pínu smeik við hæstu tónana í orglespilinu í útvarpinu, mjög draugalegt.
Við vissum ekki alveg við hverju mátti búast þegar kom að pakkaopnun. Hildur hefur hingað til aldrei verið mikið fyrir að opna pakka, en þetta kvöld fór alveg eins og það átti að fara. Þar sem Hildingur á svo stóra fjölskyldu voru þetta heil ósköp af pökkum og þessvegna var bara sumt lagt undir tréð þetta kvöld. Planið var svo að hún myndi opna nokkra pakka, fara svo að sofa og opna restina daginn eftir.
Hildur Inga varð hins vegar alveg heilluð af þessari athöfn. Í fyrsta lagi þurfti hún aldeilis að leika með allt sem kom úr pökkunum og það sem kom í pörtum skyldi vera sett saman samstundis. Svo þurfti hún líka helst að máta fötin sem hún fékk og var þessvegna í lopapeysu stóran hluta kvöldsins. Þegar hún var búin með sína pakka vildi hún endilega halda áfram. Þá var nú lítið mál að setja hana í að útdeila gjöfum til hinna í boðinu. Það gerði hún af mikilli röggsemi og aðstoðaði svo viðkomandi við að opna pakkan. Þetta var mikil skemmtun, bæði fyrir Hildi og aðra viðstadda.
Loks upp úr tíu missti litla manneskan áhugan á pökkunum (þá voru nokkrir enn eftir). Þá tókum við bara smá pásu og fengum okkur ís sem sú stutta borðaði með bestu list. Þegar hann var búin ætlaði hún svo bara að halda áfram að leika. Það var nú ekki alveg í boði, heldur var henni skellt í náttföt og beint í ból. Því hafði hún ekki orku í að mótmæla því hún sofnaði á leiðinni ofan í rúmið, og stein svaf til morguns.

Afi og amma gistu á jóla nótt og restin af jólunum leið í afslappelsi og cocopopsát og leik með nýja dótið að sjálfsögðu. Gamlárskvöld var líka ósköp skemtilega en þá voru flestir í partýinu hálf slappir svo það var ekki mikið partý það kvöldið. Hildur Inga sýndi hins vegar mikin áhuga á stjörnuljósum og öðru gamlársdóti svo við gerum ráð fyrir hressara gamlárskvöldi að ári.

miðvikudagur, febrúar 02, 2011

Nóvember

Í byrjun nóvember fórum við í foreldraviðtal á leikskólanum. Það var afskaplega hugguleg stund, þar sem við sátum í tæpan klukkutíma með pedagógunum og töluðum fallega um Hildina. Þar kom fram að Hildur Inga er prúð, glöð og skemmtileg stelpa. Full af fjöri og orku og dugleg að leika sér. Þar að auki er hún afskaplega dugleg að bjarga sér og er góð við hin börnin. Hún knúsar þau og kyssir við hvert tækifæri og er fyrst til að koma og hugga ef einhver meiðir sig. Þetta kom okkur mikið á óvart því við fengum á þessum tíma lítið af knúsum og ef við báðum um koss þá fengum við náðsamlegast að smella einum á kinnina.
Frekju taktarnir sem við vorum farin að sjá heima létu ekki á sér kræla á leikskólanum og borðsiðir sem var (og er) ansi ábótavant heimavið, voru til fyrirmyndar. Hinsvegar könnuðust þær við stælana frá öðrum börnum, svo væntanlega er þetta eitthvað sem hún lærir þar en þorir bara að prófa heima hjá sér. Loka vitnisburðurinn var svo "det gladeste barn jeg nogen siden har mødt". Sem er nú bara ansi gott.
Við fórum því kát og glöð heim og bjartsýn á að þriggja vikna heimsókn til Íslands væri nú lítið mál fyrir Hildinginn. Við höfðum rangt fyrir okkur. Glaða barnið týndist nefnilega einhverstaðar yfir Færeyjum og við fundum hana ekki aftur fyrr en viku seinna. Hún hætti að tala í smá tíma, varð vælin, erfið, þreytt og stressuð á stöðugum boðum og heimsóknum.
Þetta var þó ekki alslæmt. Ömmurnar standa alltaf fyrir sínu og afi gaf bæði ís og súkkulaði. hún vingaðist líka við kisu og gaf honum harðfisk og kattamat. Hún reyndi líka að gefa honum með sér af piparkökum en hann vildi það ekki. Svo var nú líka alveg ágætt að leika við öll þessi frændsystkin og komast í stórukrakkadót. Hildur mátaði sig líka í stórufrænku hlutverkinu og ruggaði litlu Önnu hratt og örugglega í stólnum sínum og potaði snuði upp í frændur sína.
Eins og venjulega varð Hildur veik næst síðasta daginn á Íslandi. Hún gubbaði voða mikið og fékk smá hita, þannig að síðustu dagarnir fóru í ekki neitt. Það var svosem ágætt því við vorum öll orðin ósköp lúin eftir þeytinginn og höfðum gott af smá pásu. Það var þessvegna ákaflega hamingjusöm fjölskylda sem hélt á flugvöllinn 2. desember, með eina ömmu í farteskinu.

framhald í næsta bloggi...