fimmtudagur, maí 21, 2009
Hildur Inga þriggja vikna
Þriggja vikna Hildur stækkar og fitnar og er strax vaxin upp úr minnstu sokkunum sínum. Hún er orðin mjög dugleg að borða og er búin að fara þrisvar í bað og líkar það alltaf betur og betur. Hildur Inga er líka dugleg að spara foreldrum sínum bæði þvott og peninga með því að pissa helst bara á skiptiborðið en á móti kemur að hún kúkar gjarnan í fötin sín svo það kemur svosem út á það sama.
Hildur sofnar alltaf sjálf þegar við slökvum ljósin á miðnætti og sefur þá í fjóra til fimm tíma. Þá vaknar hún til að drekka, sofnar svo aftur og fær aftur að drekka þremur tímum seinna og sofnar aftur. Svona gengur það yfirleitt til hádegis en þá finnst henni nóg komið af svefni og heimtar bæði mat og félagskap með stuttum blundum inn á milli en tekur einn langan dúr í eftirmiðdaginn. Á kvöldin er hún pínu vælin og vill helst bara vera í fangi eða á brjósti til miðnættis þegar hún fer aftur að sofa.
Hildur Inga er líka búin að uppgvötva hvað það er að leiðast. Þegar við föttuðum það rukum við til og teiknuðum upp þroskandi svarthvítar myndir sem Hildur stúderar nú vandlega í vöggunni. Hún er líka mjög hrifin af klukkunni sem hangir fyrir ofan sófan og skoðar hana gjarnan gaumgæfilega þegar hún er að drekka. Hildur er líka búin að fara tvisvar út í vagni og oft í bílinn. En sem komið er er hún hrifnari af bílnum en hún er mikið ferðabarn og stein sofnar þegar hún er sett í stólinn sinn.
Þriggja vikna Hildur er ósköp falleg og góð lítil stelpa, þó hún sé stundum svolítið tímafrek og finnist ekkert endilega að mamma hennar þurfi nokkuð að fá sér að borða eða svoleiðis. Hún er líka farin að brosa í svefni og stundum óvart í vöku, svo nú bíðum við spennt eftir að hún brosi viljandi til okkar.
laugardagur, maí 09, 2009
sunnudagur, maí 03, 2009
Hildur Inga Hákonardóttir
Hildur Inga fæddist 1. maí kl 16:35 eftir það sem lengst af var tíðindalítil fæðing en endaði í smá drama þar sem hún ákvað að fara að fordæmi móður sinnar og vefja naflastrengnum um hálsinn á sér, til skrauts. Uppúr þessu hafði hún marblett á hnakkann (eftir sogklukku) og stutta dvöl á vökudeild. Hún jafnaði sig þó fljótt og vel og var komin til okkar rúmum fjórum tímum seinna.
Mamma hennar uppskar hins vegar bestu vímu æfi sinnar í formi glaðlofts á meðan á saumaskap stóð því það var engin skurðstofa laus til að sinna henni. Það gekk þó vel fyrir sig, þó hún verði líklega lengur að jafna sig en dóttirin. Hún reyndist, öllum að óvörum, vera 16 merkur og 52 sentimetrar og samkvæmt sérfræðingum í bransanum hefði hún líklegast ekki komist út hjálparlaust. Pabbinn hefur það eftir atvikum gott.
Við gistum á sængurkvennagangi nóttina á eftir en forðuðum okkur þaðan sólahring síðar með böns af verkjalyfjum, búnnt af bleikum rósum og eitt barn. Hildur var ekkert að tvínóna við hlutina en valdi fyrstu nóttina heima til að taka foreldra sína alveg á taugum í nokkra klukkutíma því hún fékk í magann. Við íhuguðum þá alvarlega að skila henni bara aftur en fyrirgáfum henni samt seinna því við náðum þó fjórum tímum af samfeldum svefni sem ljósan sagði að væri bara mjög gott. (Hún er samt enn með skiptimiðann á sér!)
Næstu daga ætlar Hildur Inga að æfa sig að sjúga og foreldrar hennar ætla að æfa sig að sofa í skorpum.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)