Hildur Inga er átján mánaða í dag, það er merkilegur aldur. Ef hún væri á Íslandi færi hún í skoðun hjá lækni þar sem færi fram alment þroskamat og bólusetning. Svoleiðis eru hlutirnir ekki gerðir í DK þannig að hér á eftir koma niðurstöður úr heimatilbúnu þroskamati.
Hildur Inga 18 mánaða:
Hæð: 80 cm (mæligagn: tommustokkurinn hans pabba).
Þyngd: 12 kíló ca. (mæligagn: vigtin á pósthúsinu, í útigalla).
Augu: blá
Hár: ljósar krullur, með rauða enda og aðeins farið að dökkna í rótina.
Heilsufar: fínt bara, smá hor en ekkert til að kvarta yfir.
Almennt:
Hildur Inga er kát og skemmtileg stelpa, ákveðin og lætur engan vaða yfir sig, allra síst foreldra sína. Skapið er þó búið að koma okkur í vandræði þar sem nágranninn var farin að hafa áhyggjur af að við værum að pína barnið. Þann miskilning náðist að leiðrétta áður en hann hringdi á barnavernd en eitthvað hefur Hildur orðið vör við að þetta gengi ekki lengur, því hún hefur verið miklu afslappaðri síðan.
Svefnvenjur Hildar eru orðnar miklu rútíneraðri á haustmánuðum og sefur hún nú frá hálf átta til sjö (oftast) og svo einn og hálfan til tvo tíma á leikskólanum. Þetta kemur til af samstilltu átaki heimilis og skóla, því nú er farið að sussa á hana þegar hún vaknar óásættanlega snemma, (hún var nefnilega farin að vekja hin börnin á leikskólanum þegar hún vaknaði syngjandi kát eftir 40 min svefn og var svo orðin yfir sig þreytt um fimmleitið). Nú tekur hún sussið svo alvarlega að þegar hún núna sér mynd af sofandi barni byrjar hún að sussa í gríð og erg.
Hildi finnst best að sofa í sínu bóli með sínar tvær duddur og Kalla kanínustrák en er farin að vilja kúra pínu á morgnanna í mömmu og pabba bóli aftur. Hún strækaði nefnilega alveg á okkur í sumar og neitaði alveg að koma uppí ef hún vaknaði of snemma á morgnanna, enda allt of heitt og þröngt í stóra rúminu með tveimur fullorðnum.
Á sama tíma ákvað hún líka að það væri bara ekki kúl að knúsa foreldra sína og barðist um á hæl og hnakka ef það var reynt. Hins vegar þykir henni ósköp gott að fá morgun knús hjá Lene, uppáhalds kennaranum sínum og heilsar henni þannig á hverjum morgni. Þetta er þó allt að skána, og hún bæði knúsar og kyssir okkur og ef hún er í þannig stuði.
Borðsiðir Hildar eru ekkert til að hrópa húrra fyrir. Hún borðar sjálf flest allan mat og eins mikið eða lítið og hún vill, en hún á það líka til að henda matnum í gólfið og hella niður vatninu sínu bara til að sjá hversu langt hún drífur. Hún virðist haga sér betur á leikskólanum og þegar eru gestir svo við höfum einhverja von um að geta þegið matarboð þegar við komum til Íslands.
Helstu áhugamál mál Hildar Ingu er að leika, mikið, mikið, mikið. Henni þykir rosa gaman að leika úti, sérstaklega að róla og moka. Inni finnst henni flest allt skemmtilegt. Hún kann að byggja turn úr átta kubbum, lesa bækur og teikna (bæði á veggi og blöð). Hún er mikill verkfræðingur og dundar lengi við að raða saman púslum og pota dóti ogan í kassa.
Henni þykir óskaplega gaman að keyra vagninn sinn og geyma dót í honum og nýjasti leikurinn er að dunda sér með bollastell og eldhús dót. Hildur er mikill príliköttur, núna er hún sérstaklega að kanna fleti sem eru í ca. 70 cm hæð og stefnir hærra. Fín og gróf hreifingar eru semsagt á réttu róli og rúmlega það.
Máltakan gengur eðlilega fyrir sig að mestu. Hildur getur allt sem hægt er að ætlast til af 18 mánaða. Hún bendir á líkamsparta og segir "auja" þegar hún bendir á augað. Hún kann fullt af orðum og skilur langar setningar og virðist vera nokkuð jafnvíg á íslensku og dönsku. Eins og þekkt er hjá tvítyngdum börnum segir hún ekki mikið ennþá en skv.pedagógunum er hún á réttu róli í máltöku miðað við dönsk börn. Talmeinafræðingurinn móðir hennar er hinsvegar spennt að sjá hana í samanburði við íslenska jafnaldra.
Heimurinn hennar Hildar Ingu er ósköp lítill og rólegur. Hann samanstendur af Caprivej með pabba og mömmu, og leikskólanum, með Lene, Louise og Mattilde og öllum krökkunum. Svo á hún líka ömmur og afa sem búa í tölvunni og svo er stundum ágætis fólk sem sefur í sófanum og nennir að leika. Maður hefði haldið að svona einangrun gæti valdið mannafælu og óöryggi en svo er ekki. Hildur tekur öllum vel og virðist þekkja sitt heimafólk, enda á hún fullt albúm af myndum með mikilvægustu andlitunum.
Við erum samt óskaplega spennt að komast með hana til Íslands og leyfa henni að hitta fólkið á myndunum og sjá hvernig hún bregst við, en þangað til líkur þessari samantekt eins og Hildur Inga gerir þegar í hvert sinn sem hún fer út úr herbergi..."hej hej" og smá vinki.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Yndislega Hildur! Frábær samantekt. Við erum líka orðin mjög spennt að sjá hana og foreldrana :)
kv.
Birna Ósk
Æðisleg skvísa greinilega. Við mæðgur hlökkum mikið til að hitta ykkur.
Kveðja,
Helga
Klára Hildur!!!
Skrifa ummæli