Hildur Inga er orðin fimm mánaða. Hún er orðin 7 kíló og 65 cm með lengstu handleggi í heimi sem ná í allt sem þeir eiga ekki að ná. Hildur Inga elskar snúrur og pappír og ef hún þagnar skyndilega getur maður verð viss um að hún hefur náð sér í blað og er búin með helminginn af því. Hún er búin að læra mörg trix; hún veltir sér fram og til baka um öll gólf og er líka byrjuð að ýta sér aftur á bak.
Þegar Hildur var rétt rúmlega fjögurra mánaða komumst við að því fyrir tilviljun að hún kunni að sitja. Í kjölfarið útveguðum við henni háan stól og þar situr hún nú á matmálstímum eins og stór stelpa og fær að horfa á okkur borða. Það er reyndar alveg að fara með hana að hún fær ekki að smakka matinn okkar en það verður nú einhver bið á því að hún fái það.
Best af öllu er samt að Hildur Inga er byrjuð að vilja kúra, það gerði hún aldrei áður. Reyndar stendur það ekki lengi í einu, kannski 10-15 sekúntur en er æðislegt á meðan það varir. Hún er líka farin að una sér betur og betur ein við dundur og getur leikið sér lengi í einu á mottunni sinni.
Hildur sefur enn vel á nóttunni. Hún fer í bólið rúmlega hálf níu og sefur yfirleitt í einum dúr til kl 6 (þetta fer reyndar eftir því hversu mikið hún nær að borða yfir daginn, sem fer aftur eftir því hversu lengi mamma hennar er í skólanum). Á morgnanna er svo oft hægt að plata hana til að kúra áfram með því að taka hana uppí til okkar. Þá vaknar maður yfirleitt seinna við hátt hjal og fruss en ef hún er búin að bíða mjög lengi eftir okkur vöknum við við létt högg. Ég geri samt fastlega ráð fyrir að þetta fyrirkomulag muni ekki henta ungfrúnni mikið lengur og við þurfum að hætta að vera latir foreldrar áður en Hildur ákveður upp á sitt einsdæmi að yfirgefa samkvæmið. Hún er nefnilega dáldið mikið að flýta sér þessi stelpa.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Oh, þið heppin að hún sofi svona vel á næturnar. Svo er bara að venja foreldrana á að fara fyrr að sofa.
Það hefur enn ekki tekist hér, þrátt fyrir að sú eldri verður 12 ára eftir tæpa viku.
Kærar kveðjur úr Eyjabakkanum.
Þetta var það, það er annað upp á teningnum núna.
Skrifa ummæli