föstudagur, september 18, 2009

Nágranninn

Danir trúa ekki á gluggatjöld. Þess vegna veit ég ótrúlegustu hluti um fólkið í kring um mig þó ég þekki það ekki neitt. Þetta er í raun óhjákvæmilegt þegar nábýlið er svona mikið og öll herbergi blasa við upp ljómuð. Svo þið megið ekki halda að ég liggi úti í glugga heilu kvöldin og fylgist með nágrönnum mínum. Það geri ég ekki. Það er að segja þangað til í kvöld.
Í kvöld stóð ég með snakkpoka í myrkvuðu eldhúsi og fylgdist með nágranna mínum hinum megin garðsins.
Annan hvern föstudag eftir kvöldmat þrífur þessi nágranni minn svefnherbergið hjá sér. Hann tekur af rúmunum, setur rimlarúmið upp í hjónarúmið (væntanlega eftir að hafa þrifið á því fæturnar!) og fer með allt lauslegt inn í eldhús eftir að hafa þurkað af því. Þetta lauslega er m.a myndirnar á vegjunum, golfsett, regnhlífar og vigt. Því næst ryksugar hann herbergið og skúrar, raðar svo öllu inn aftur setur hreint á rúmin og leggur síðan barnið sitt til svefns, sem hefur verið baðað á meðan öllu þessu stendur.
Yfirleitt heldur hann svo áfram inni í stofu og ef hann hefur tíma tekur hann líka eldhúsið (það er samt ekki svo merkilegt því það er þrifið einu sinni á dag. Svo bakar hann líka sundum og straujar reglulega inni í eldhúsi. Konan hans eldar hins vegar matinn.
Ég er gjörsamlega heilluð af þessari hegðun. Ég geri mér mér grein fyrir að þetta er kannski ekki alveg heilbrigt hjá honum (og ekki mér heldur) en ég bara skil ekki hvernig hann fer að þessu og það sem meira er, mig langar svo að vita það. Ég fæ nefnilega alltaf smá samviskubit þegar hann byrjar því barnið mitt liggur þá yfirleitt og sefur í ekki alveg hreinu herbergi og eldhúsið er í rúst á meðan ég borða súkkulaði inni í stofu. Hef samt á tilfinningunni að mér líði betur heima hjá mér heldur en honum.

Kannski ég ætti bara að bjóða honum í heimsókn? Honum þætti það örugglega gaman.

2 ummæli:

Snjósa sagði...

hahaha ... þetta er snilld!
Tekur hann í alvöru myndirnar af veggjunum! .. ég geri það bara þegar ég flyt eða skipti um myndir :)

Anna sagði...

Já já strípar alveg herbergið.