fimmtudagur, mars 20, 2008

Skírdagur 20. mars 2008

Fyrir mörgum árum sá ég mynd sem fjallaði um konu á hverri hvíldi sú bölvun að eftir tveggja ára dásamlegt samband myndi eina sanna ástin hennar deyja frá henni. Til að koma í veg fyrir það gerði þessi kona, sem var göldrótt, lista yfir þá kosti og galla sem sanna ástin hennar yrði að búa yfir og mælti svo fyrir um að hvergi gæti fundist slíkur maður. Taldi hún sig þar með hafa snúið á bölvunina. Ég held að henni hafi ekki tekist ætlunarverkið og myndin var svosem ekki eftirminnileg, en þessi hugmynd um listann hefur alltaf setið í mér. Síðan þá hef ég velt því fyrir mér hvaða eiginleika maður sem passaði fyrir mig þyrfti að búa yfir og í gegn um tíðina hefur mér tekist að raða saman hugmyndum í hinn fullkomna mann.
Til að byrja með var þetta nokkuð einfalt. Hann þyrfti að vera stærri en ég (sem er svosem ekki erfitt), með fallega pínu dökka rödd og ekki vera ljóshærður. Hann yrði að kunna að elda, nenna að vaska upp og spila á hljóðfæri. Allt, hlutir sem myndu koma upp á lista hjá hinni almennu nútímakonu.
Það voru líka fleiri hlutir sem eru pínulítið sérhæfðari, mig hefur t.d alltaf langað til að eiga heimili þar sem spiluð er tónlist og þar sem ég er ekki dugleg við það sjálf yrði þessi maður að gera það. Viðkomandi yrði líka að taka sig vel út með hatt og í frakka, eins og mennirnir í Matador og öðrum álíka sjónvarpsefni sem ég er sólgin í. Mætti samt ekki vera of vel til fara svona dags daglega og þyrfti að vera til í að láta sér vaxa skegg öðru hvoru.
Svo voru það hlutir sem erfitt er að festa hendur á eins og að vera með sorgleg augu (fyrirbæri sem enginn skilur nema ég) og hann þyrfti að geta gert eitthvað með höndunum, allveg sama hvað bara þannig að hægt sé að horfa á hann á meðan. Hann yrði líka að hafa gott vald á tungumálinu og geta komið skemmtilega frá sér orði.
Nú er það ekki svo að ég hafi gengið á eftir mönnum með tjekklista til að finna þann rétta og eflaust hafa verið fleiri atriði á listanum, enda var hann í mörg ár að mótast. Mér datt heldur aldrei í hug að þessi maður væri til.
Þegar ég kynntist Hákoni vissi ég ósköp lítið um hann annað en að honum þætti súkkulaði voða gott og að hann ætti haug af systkinum. Í byrjun var ég heldur ekkert reyna að komast að neinu, því mér var alveg sama. Það var bara eitthvað svo kunnulegt við hann að ég gat ekki haldið mig frá honum. Það var ekki fyrr en við vorum búin að vera saman í töluverðan tíma og ég fór að kynnast honum betur að ég uppgvötvaði að hann hafði með sér að bera nánast hvert einasta atriði á listanum mínum.
Hann er stærri en ég, dökkhærður með skegg og með rödd sem getur fengið mig til að hætta því sem ég er að gera til að hlusta betur, og hún er alveg sérstaklega skemtilega hrjúf snemma á morgnanna. Hann er ótrúlega myndarlegur í frakka og með hatt þó hann sé yfirleitt bara passlega vel til fara og ekkert of fínn. Hann eldar góðann mat og vaskar upp ( og þrýfur klósettið!). Hann er tónlistarunnandi mikill og elskar að hlusta á tónlist heima hjá sér. Hann spilar á gíta og einn daginn stóð hann upp og fór að spila á pianó, án þess að ég vissi að hann kynni það.
Hann getur lagað allt, og ég get setið allann daginn og fylgst með honum skrúfa hluti sundur og saman. Hnn er líka fyndinn og góður og klár og stundum fæ ég fiðring í magan yfir því hvað hann talar skemmtilega. Og það besta af öllu er að hann er með þau sorglegustu augu sem ég hef nokkurtíman verið svo heppin að horfa í.

Í dag ætla ég að giftast þessum manni. Ekki vegna þess að hann er alveg eins og sá sem ég hafði ýmyndað mér fyrir löngu síðan heldur vegna þess að hann er hlýr og góður og hann elskar mig og lífið er einfaldlega skemmtilegra með honum en ekki.

Í dag ætla ég að giftast þessum manni.

Annað væri líka fáránlegt, hann var neblega búin til handa mér.

7 ummæli:

Ásdís sagði...

Til hamingju með daginn

Telma sagði...

Til hamingju með daginn og hvort annað!

Nafnlaus sagði...

Hæhæ.
Innilegar hamingjuóskir með daginn kæra mágkona. Þakka kærlega fyrir að fá að deila æðislegum degi með ykkur, já og aðeins lengur.
Þetta var bara alveg frábærlega heppnað brúðkaup og veislan var æði líka. Ég skemmti mér mjög vel og hlakka mikið til að sjá ykkur aftur. Þið eruð æðisleg og enn æðislegri saman, eruð sköpuð fyrir hvort annað.
Elska ykkur bæði. Takk fyrir mig.

Kveðja, Helga

Bidda sagði...

Skemmtilega skrifað, innilega til hamingju með gærdaginn, bæði tvö.

Nafnlaus sagði...

Innilega til hamingju með daginn!

Unknown sagði...

Innilega til hamingju bæði tvö
Kveðja
Unnur

Eygló sagði...

Innilega til hamingju með daginn :) Koma svo ekki myndir ? :D