Í byrjun nóvember fórum við í foreldraviðtal á leikskólanum. Það var afskaplega hugguleg stund, þar sem við sátum í tæpan klukkutíma með pedagógunum og töluðum fallega um Hildina. Þar kom fram að Hildur Inga er prúð, glöð og skemmtileg stelpa. Full af fjöri og orku og dugleg að leika sér. Þar að auki er hún afskaplega dugleg að bjarga sér og er góð við hin börnin. Hún knúsar þau og kyssir við hvert tækifæri og er fyrst til að koma og hugga ef einhver meiðir sig. Þetta kom okkur mikið á óvart því við fengum á þessum tíma lítið af knúsum og ef við báðum um koss þá fengum við náðsamlegast að smella einum á kinnina.
Frekju taktarnir sem við vorum farin að sjá heima létu ekki á sér kræla á leikskólanum og borðsiðir sem var (og er) ansi ábótavant heimavið, voru til fyrirmyndar. Hinsvegar könnuðust þær við stælana frá öðrum börnum, svo væntanlega er þetta eitthvað sem hún lærir þar en þorir bara að prófa heima hjá sér. Loka vitnisburðurinn var svo "det gladeste barn jeg nogen siden har mødt". Sem er nú bara ansi gott.
Við fórum því kát og glöð heim og bjartsýn á að þriggja vikna heimsókn til Íslands væri nú lítið mál fyrir Hildinginn. Við höfðum rangt fyrir okkur. Glaða barnið týndist nefnilega einhverstaðar yfir Færeyjum og við fundum hana ekki aftur fyrr en viku seinna. Hún hætti að tala í smá tíma, varð vælin, erfið, þreytt og stressuð á stöðugum boðum og heimsóknum.
Þetta var þó ekki alslæmt. Ömmurnar standa alltaf fyrir sínu og afi gaf bæði ís og súkkulaði. hún vingaðist líka við kisu og gaf honum harðfisk og kattamat. Hún reyndi líka að gefa honum með sér af piparkökum en hann vildi það ekki. Svo var nú líka alveg ágætt að leika við öll þessi frændsystkin og komast í stórukrakkadót. Hildur mátaði sig líka í stórufrænku hlutverkinu og ruggaði litlu Önnu hratt og örugglega í stólnum sínum og potaði snuði upp í frændur sína.
Eins og venjulega varð Hildur veik næst síðasta daginn á Íslandi. Hún gubbaði voða mikið og fékk smá hita, þannig að síðustu dagarnir fóru í ekki neitt. Það var svosem ágætt því við vorum öll orðin ósköp lúin eftir þeytinginn og höfðum gott af smá pásu. Það var þessvegna ákaflega hamingjusöm fjölskylda sem hélt á flugvöllinn 2. desember, með eina ömmu í farteskinu.
framhald í næsta bloggi...
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli