mánudagur, desember 28, 2009

fimmtudagur, desember 24, 2009

miðvikudagur, desember 23, 2009

Næstum því bráðum átta mánaða.

Næstum því átta mánaða Hildur Inga bíður eftir jólunum, eða þannig. Hún veit náttúrulega ekkert hvað er í gangi en við hlökkum óskaplega til að halda jólin með henni. Afi og amma eru komin til Danmerkur og pössunarþjónustan hefur verið nýtt til hins ítrasta. Nú þarf nefnilega virkilega á því að halda því Hildur er orðin svo hreifanleg.
Tæplega sjö mánaða gömul byrjaði Hildur að skríða. Hún var búin að reyna mikið og oft með litlum árangri að koma sér áfram og það fór alveg óskaplega í taugarnar á henni. Svo allt í einu byrjaði hún að hreyfa hendur og fætur í takt (krossa). Fyrst var hún eins og illa stillt vélmenni, hæg og höktandi en svo allt í einu kom þetta og hún hefur ekki hætt síðan.
Hildur fer í langar ævintýraferðir úr stofunni og inn í eldhús og maður getur alveg eins átt von á því að mæta henni á leið út af baðherberginu án þess að vita hvernig hún komst þangað. Á baðherberginu er nefnilega stór og skemmtilegur þröskuldur sem gaman er að komast yfir. Hildur er afskaplega ánægð með þessa nýju færni og hún er líka farin að sofa betur á daginn nú þegar hún nær að losa svona vel um orkuna.
Sá galli er þó á að með nýrri færni koma líka nýjar kröfur. Nú er nefnilega ekki eins auðvelt að húkka sér far á milli herbergja því hún getur gert sjálf. Þetta var svoakalega erfitt í byrjun, og stundum þegar við ætluðum að fara á milli herbergja og láta hana koma á eftir heyrðist skaðræðis öskur. Þá sat Hildur Inga á gólfinu þar sem hún hafði verið skilin eftir, öskureið og teygði hendurnar á móti okkur. Þetta er allt að jafna sig núna samt og hún er öruglega búin að steingleyma að hun hafi nokkurtíman verið lítil og bjargarlaus.
Það nýjasta sem Hildur er að æfa sig á þessa dagana er að standa upp og tína sjálf upp í sig mat. Hún er orðin rosalega flink í báðu og þykir alveg óskaplega gaman. Stundum vill samt seíósið ekki fara alla leið í munninn heldur ýtast inn í lófan í staðinn. Það er samt bara ágætt því þá getur hún haft með sér nesti inn í daginn, ótrúlegt hvað hægt er að gera mikið með kreppta hnefa.
Næsta skref hjá Hildi verður nú að halda jólin og opna alla pakkana og svo skreppa til Íslands til að klípa í skottið á kisu og hitta fleiri krakka.

föstudagur, desember 18, 2009

Orsök og afleiðing.

Hildur Inga elskar dót sem hún má ekki vera með, þar á meðal eru fjarstýringar. Fjarstýringar eru stórhættulegar, eins og Hildur er nú þegar búin að kynnast. Einu sinni var Hildur að dunda sér inni í stofu og tókst að ná sér í sjónvarpsfjarstýringuna. Hún lék sér lengi, lengi við að ýta á takka og eftir dágóða stund tókst henni að kveikja á sjónvarpinu.
Þar sem DVD tækið er tengt við sjónvarpið kom ekki mynd strax heldur bara pínu suð og svo svartur skermur. Þetta var nú eins gott því það þýddi að Hildur var komin í hæfilega fjarlægð þegar henni tókst að ýta á 2 og allt varð vitlaust. Í millitíðinni hafði henni nefnilega tekist að hækka í botn og þess vegna komu mikil læti þegar hún ýtti á takkann. Hildur varð ósköp hrædd, en komst hratt og örugglega í pabbafang og fór því ekki að gráta. Við héldum að þar með væri sagan búin en svo var ekki.
Í morgun sat Hildur á gólfinu, enn og aftur að leika sér að fjarstýringu og að sjálfsögðu tókst henni að kveikja á sjónvarpinu. Það er eins tengt og síðast og þessvegna kom aftur svartur skjár og lágt suð. Eitthvað hefur fyrri reynsla setið í henni því þegar hún heyrðu suðið brá henni svo mikið að hún henti frá sér apparatinu og flýtti sér í næsta fang (sem að þessu sinni var mömmufang).
Aldrei hef ég séð hana svona fljóta að standa upp eins og þá. Hildur Inga hefur sem sagt áttað sig á orsök og afleiðingu.

fimmtudagur, nóvember 26, 2009

Here again by popular demand.

Da da da dammm, Óskalistinn 2009!!!!
Anna:

Jólaeldhúsgardínur eftir Bjarna Jónsson
Kökudisk á fæti
Rauðan hördúk
Fötfötfötfötföt
Múmínstell
Úlpu
Förðunarpensla
Sængurver á sængina okkar, 120x140.

Bækur:
Húsið á bangsahorni (Nýja Bangsímonbókin)
Í húsi afa míns
Yfir hafið og í steininn
Ísland í aldanna rás
Heimkoman
Vigdís
Árin sem engin man
Hvað á ég að gefa barninu mínu að borða
Mataræði ungbarna fyrstu árin

Prjónum saman (DVD)
Fangvaktin


Hildur Inga:

Föt í stærð 74 og upp, aðalega upp.
Skemmtilegt dót sem gerir eitthvað, Hildur er komin með leið á öllu dótinu sínu fyrir löngu, enda búin að smakka oft, oft á því.
Múmínálfabókastoðir.

Hákon:
Tíglapeysu
Kanilkvörn
Pizzahníf

Ath þessi listi er aðalega hugsaður fyrir afa og ömmur hvort sem er til jóla eða afmælis, enda nánast bara þau sem lesa þetta (og báðu um hann). Auk þess verðum við í DK um jólin og gerum því ekki ráð fyrir jólagjöfum þetta árið.

Að lokum...




Glaðasta barnið í Kaupmannahöfn.

sunnudagur, nóvember 15, 2009

Bras og þras á Caprivej!


Á Caprivej hefur öllu verið snúið á hvolf. Stofan er orðin að svefnherbergi og svefnherbergið er orðið stofa. Hildur hefur fengið sinn stað í íbúðinni og það er komið nýtt gólf á íbúðina. Skiljanlega er allt í rúst og næsta skref verður að koma öllu á nýja staði áður en gestahrynan ógurlega hefst.

Hildur getur ekki alveg ákveðið hvort þetta er óskaplega spennandi eða skelfilega ógnvekjandi. Annarsvegar er ótrúlega margt spennandi í seilingarfjarlægð, þá á ég náttúrulega við snúrur, sagir og hamarinn góða. Vandamálið er að það má ekki leika með þetta og er alltaf rifið af henni rétt í þann mund sem hún er að stinga viðkomandi hlut upp í sig. Hinsvegar koma stundum ógurleg læti og foreldrar hennar hafa ekkert rosalega mikin tíma til að leika við hana og dótið hennar er orðið alveg ógeðslega leiðinlegt, enda er hún búin að vera að leika með það í 6 mánuði.
Hildur Inga er s.s orðin 6 mánaða. Hún er farin að sitja alveg sjálf, getur m.a sest upp af gólfinu hjálparlaust, og byrjuð að reyna að skríða. Það fer nefnilega alveg viðbjóðslega í taugarnar á henni að komast ekki áfram. Hún er búin að prófa að toga sig á hnén af maganum, og dilla sér fram og aftur. Það virkaði ekki, svo nú stendur hún á höndum og fótum og reynir að hoppa áfram. Yfirleitt lendir hún á andlitinu og fer að gráta.
Hildur er líka búin að læra að klappa og skella í góm, og gerir bæði í gríð og erg. Merkilegast er þó að hún er farin að borða mat og henni finnst það æði. Hún tekur við öllu þó henni finnist það mis gott. Það sem henni finnst lang best núna er líka það síðasta sem hún smakkaði. Hún fékk nefnilega nautakjötsbita til að jappla á í gær og ætlaði ekki að vilja sleppa honum. Pabbi hennar er mjög stoltur af því.
Stelpan okkar er yfirleitt alltaf kát og glöð, dugleg að leika sér og unir sér vel í einverunni í Danmörku. Reyndar er að koma upp í henni einhver frekja, sem við vonum að sé eðlilegur hluti af þroskanum en ekki eitthvað sem við munum glíma við næstu tuttugu árin. Hún vill endilega borða sjálf og kvartar hástöfum ef hún fær ekki skeið í hendina (reyndar getur hún stungið skeiðinni með mat upp í sig). Hún verður líka voðalega sár ef við skiljum ekki hvað hana vantar og gerum ekki eins og hún vill.



þriðjudagur, október 06, 2009

Fimm mánaða!

Hildur Inga er orðin fimm mánaða. Hún er orðin 7 kíló og 65 cm með lengstu handleggi í heimi sem ná í allt sem þeir eiga ekki að ná. Hildur Inga elskar snúrur og pappír og ef hún þagnar skyndilega getur maður verð viss um að hún hefur náð sér í blað og er búin með helminginn af því. Hún er búin að læra mörg trix; hún veltir sér fram og til baka um öll gólf og er líka byrjuð að ýta sér aftur á bak.
Þegar Hildur var rétt rúmlega fjögurra mánaða komumst við að því fyrir tilviljun að hún kunni að sitja. Í kjölfarið útveguðum við henni háan stól og þar situr hún nú á matmálstímum eins og stór stelpa og fær að horfa á okkur borða. Það er reyndar alveg að fara með hana að hún fær ekki að smakka matinn okkar en það verður nú einhver bið á því að hún fái það.
Best af öllu er samt að Hildur Inga er byrjuð að vilja kúra, það gerði hún aldrei áður. Reyndar stendur það ekki lengi í einu, kannski 10-15 sekúntur en er æðislegt á meðan það varir. Hún er líka farin að una sér betur og betur ein við dundur og getur leikið sér lengi í einu á mottunni sinni.
Hildur sefur enn vel á nóttunni. Hún fer í bólið rúmlega hálf níu og sefur yfirleitt í einum dúr til kl 6 (þetta fer reyndar eftir því hversu mikið hún nær að borða yfir daginn, sem fer aftur eftir því hversu lengi mamma hennar er í skólanum). Á morgnanna er svo oft hægt að plata hana til að kúra áfram með því að taka hana uppí til okkar. Þá vaknar maður yfirleitt seinna við hátt hjal og fruss en ef hún er búin að bíða mjög lengi eftir okkur vöknum við við létt högg. Ég geri samt fastlega ráð fyrir að þetta fyrirkomulag muni ekki henta ungfrúnni mikið lengur og við þurfum að hætta að vera latir foreldrar áður en Hildur ákveður upp á sitt einsdæmi að yfirgefa samkvæmið. Hún er nefnilega dáldið mikið að flýta sér þessi stelpa.

föstudagur, september 18, 2009

Nágranninn

Danir trúa ekki á gluggatjöld. Þess vegna veit ég ótrúlegustu hluti um fólkið í kring um mig þó ég þekki það ekki neitt. Þetta er í raun óhjákvæmilegt þegar nábýlið er svona mikið og öll herbergi blasa við upp ljómuð. Svo þið megið ekki halda að ég liggi úti í glugga heilu kvöldin og fylgist með nágrönnum mínum. Það geri ég ekki. Það er að segja þangað til í kvöld.
Í kvöld stóð ég með snakkpoka í myrkvuðu eldhúsi og fylgdist með nágranna mínum hinum megin garðsins.
Annan hvern föstudag eftir kvöldmat þrífur þessi nágranni minn svefnherbergið hjá sér. Hann tekur af rúmunum, setur rimlarúmið upp í hjónarúmið (væntanlega eftir að hafa þrifið á því fæturnar!) og fer með allt lauslegt inn í eldhús eftir að hafa þurkað af því. Þetta lauslega er m.a myndirnar á vegjunum, golfsett, regnhlífar og vigt. Því næst ryksugar hann herbergið og skúrar, raðar svo öllu inn aftur setur hreint á rúmin og leggur síðan barnið sitt til svefns, sem hefur verið baðað á meðan öllu þessu stendur.
Yfirleitt heldur hann svo áfram inni í stofu og ef hann hefur tíma tekur hann líka eldhúsið (það er samt ekki svo merkilegt því það er þrifið einu sinni á dag. Svo bakar hann líka sundum og straujar reglulega inni í eldhúsi. Konan hans eldar hins vegar matinn.
Ég er gjörsamlega heilluð af þessari hegðun. Ég geri mér mér grein fyrir að þetta er kannski ekki alveg heilbrigt hjá honum (og ekki mér heldur) en ég bara skil ekki hvernig hann fer að þessu og það sem meira er, mig langar svo að vita það. Ég fæ nefnilega alltaf smá samviskubit þegar hann byrjar því barnið mitt liggur þá yfirleitt og sefur í ekki alveg hreinu herbergi og eldhúsið er í rúst á meðan ég borða súkkulaði inni í stofu. Hef samt á tilfinningunni að mér líði betur heima hjá mér heldur en honum.

Kannski ég ætti bara að bjóða honum í heimsókn? Honum þætti það örugglega gaman.

miðvikudagur, september 02, 2009

Lifið á Caprivej.

Jæja jæja, rúmlega einu kílói, slatta af hári og einni flugferð síðar er Hildur flutt til Danmerkur. Hún stóð sig með eindæmum vel í flugvélinni, breiddi út faðminn þegar hún tókst á loft horfði á Simpsons með pabba sínum og hélt gráti í lágmarki. Þetta var afskaplega gott, því sjaldan hafa ferðafélagar hennar átt verra flug.
Við lentum í veseni í innritun sem endaði með því að við urðum allt of sein og vorum kölluð upp í flugið. Þá var ég orðin svo stressuð að ég sat stíf af stressi í fluginu sem var annars tíðindalaust. Svo vorum við með svo mikinn farangur að við þurftum risa bíl til að fara með okkur heim. Þar voru að sjálfsögðu vegaframkvæmdir eins og venjulega svo bíllinn komst ekki inn í götuna þannig að við urðum að ferja farangurinn frá Lergravsparken og heim.
Næstu dagar fóru svo í að koma okkur fyrir í íbúðinni og fara í IKEA. Allar þessar tilfæringar urðu til þess að Hildur varð gjör spillt af eftirlæti, fór að vakna oft á nóttunni og grenja hástöfum ef hún fékk ekki eins og hún vildi. Við fórum því að ala hana upp fyrir alvöru og nú virðist okkur hafa komist fyrir mestu frekjuna.
Hildur er líka búin að læra margt skemmtilegt. Hún er löngu farin að velta sér á magann sem getur valdið ákveðnum vandræðum þegar maður nennir ekki að halda hausnum uppi lengur. Hún er líka farin að hlægja hástöfum þegar einhver leikur við hana og er orðin ótrúlega flink að stinga dóti í munninn.
Lífið á Caprivej er s.s smám samana að rútínerast. Við erum enn að reyna að koma öllu dótinu okkar fyrir og erum endanlega búin að ákveða að skipta á herbergjum, s.s breyta svefnherberginu í stofu og öfugt. Svo skemmtum við okkur við að kaupa mat sem bragð er af og njóta veðurblíðunnar.

Erum búin að taka fult af myndum síðan við komum og það má sjá hluta af þeim með því að smella hér og hér

fimmtudagur, júní 18, 2009

6 vikna


Sex vikur er merkilegur aldur. Þá er maður kominn með pínulítið vit í kollinn og byrjaður að brosa. Sex vikna Hildur er nú þegar búin að fatta að hendurnar eru góðar á bragðið og stingur þeim gjarnan upp í sig ef þær ramba einhverstaðar nálægt munninum. Eins er hún búin að læra að grípa í eyrað á sér á meðan hún drekkur. Hildur veit líka núna að besta leiðin til að fá það sem maður vill strax er að horfa beint á fólk og grenja af innlifun.
Brosa getur hún líka. Hún brosti í fyrsta skipti til mömmu sinnar rúmlega þriggja vikna en tók svo pásu í nokkra daga. Á Hvítasunnudag bar það svo við að hún brosti aftur, móður sinni til svo mikillar gleði að hún hrópaði upp yfir sig og hló og brosti á móti. Þá kom skrítinn svipur á Hildi og varð hún mjög hugsi þangað til að það rann upp fyrir henni að bros væru greinilega af hinu góða og hefur eiginlega ekki hætt að brosa síðan.
Aðrir merkilegir atburðir í lífi Hildar Ingu eru til dæmis fyrsta læknisheimsóknin (tæp 5 kíló og 58cm fyrir þá sem hafa áhuga á slíku), klæðast sparikjólog fara í óteljandi boð, fá nafnið sitt skráð í þjóðskrá og innganga í Íslendingabók.

fimmtudagur, maí 21, 2009

Hildur Inga þriggja vikna


Þriggja vikna Hildur stækkar og fitnar og er strax vaxin upp úr minnstu sokkunum sínum. Hún er orðin mjög dugleg að borða og er búin að fara þrisvar í bað og líkar það alltaf betur og betur. Hildur Inga er líka dugleg að spara foreldrum sínum bæði þvott og peninga með því að pissa helst bara á skiptiborðið en á móti kemur að hún kúkar gjarnan í fötin sín svo það kemur svosem út á það sama.
Hildur sofnar alltaf sjálf þegar við slökvum ljósin á miðnætti og sefur þá í fjóra til fimm tíma. Þá vaknar hún til að drekka, sofnar svo aftur og fær aftur að drekka þremur tímum seinna og sofnar aftur. Svona gengur það yfirleitt til hádegis en þá finnst henni nóg komið af svefni og heimtar bæði mat og félagskap með stuttum blundum inn á milli en tekur einn langan dúr í eftirmiðdaginn. Á kvöldin er hún pínu vælin og vill helst bara vera í fangi eða á brjósti til miðnættis þegar hún fer aftur að sofa.
Hildur Inga er líka búin að uppgvötva hvað það er að leiðast. Þegar við föttuðum það rukum við til og teiknuðum upp þroskandi svarthvítar myndir sem Hildur stúderar nú vandlega í vöggunni. Hún er líka mjög hrifin af klukkunni sem hangir fyrir ofan sófan og skoðar hana gjarnan gaumgæfilega þegar hún er að drekka. Hildur er líka búin að fara tvisvar út í vagni og oft í bílinn. En sem komið er er hún hrifnari af bílnum en hún er mikið ferðabarn og stein sofnar þegar hún er sett í stólinn sinn.

Þriggja vikna Hildur er ósköp falleg og góð lítil stelpa, þó hún sé stundum svolítið tímafrek og finnist ekkert endilega að mamma hennar þurfi nokkuð að fá sér að borða eða svoleiðis. Hún er líka farin að brosa í svefni og stundum óvart í vöku, svo nú bíðum við spennt eftir að hún brosi viljandi til okkar.

laugardagur, maí 09, 2009

sunnudagur, maí 03, 2009

Hildur Inga Hákonardóttir


Hildur Inga fæddist 1. maí kl 16:35 eftir það sem lengst af var tíðindalítil fæðing en endaði í smá drama þar sem hún ákvað að fara að fordæmi móður sinnar og vefja naflastrengnum um hálsinn á sér, til skrauts. Uppúr þessu hafði hún marblett á hnakkann (eftir sogklukku) og stutta dvöl á vökudeild. Hún jafnaði sig þó fljótt og vel og var komin til okkar rúmum fjórum tímum seinna.
Mamma hennar uppskar hins vegar bestu vímu æfi sinnar í formi glaðlofts á meðan á saumaskap stóð því það var engin skurðstofa laus til að sinna henni. Það gekk þó vel fyrir sig, þó hún verði líklega lengur að jafna sig en dóttirin. Hún reyndist, öllum að óvörum, vera 16 merkur og 52 sentimetrar og samkvæmt sérfræðingum í bransanum hefði hún líklegast ekki komist út hjálparlaust. Pabbinn hefur það eftir atvikum gott.
Við gistum á sængurkvennagangi nóttina á eftir en forðuðum okkur þaðan sólahring síðar með böns af verkjalyfjum, búnnt af bleikum rósum og eitt barn. Hildur var ekkert að tvínóna við hlutina en valdi fyrstu nóttina heima til að taka foreldra sína alveg á taugum í nokkra klukkutíma því hún fékk í magann. Við íhuguðum þá alvarlega að skila henni bara aftur en fyrirgáfum henni samt seinna því við náðum þó fjórum tímum af samfeldum svefni sem ljósan sagði að væri bara mjög gott. (Hún er samt enn með skiptimiðann á sér!)

Næstu daga ætlar Hildur Inga að æfa sig að sjúga og foreldrar hennar ætla að æfa sig að sofa í skorpum.

sunnudagur, mars 22, 2009

2008

Í gær setti ég upp giftingarhringinn minn (sem hefur legið óhreyfður í kassa í tvo mánuði) og fékk að fara út að borða. Ég þurfti reyndar að taka hringinn af áður en kvöldið var úti því hann var farinn að meiða mig en það var gaman að nota hann aftur engu að síður. Ég er farin að sakna hans.

Í gær var ég búin að vera gift í eitt ár.

Um áramótin ætlaði ég að vera voða dugleg og gera samantekt um árið 2008 en einhvernvegin kom ég mér aldrei að því. Ég ákvað þess vegna að bíða eftir 20 mars og skrifa um árið sem leið frá þeim degi. Byrjunin á 2008 var ekkert skemmtileg hvort sem er.

2008 var spes ár. Ég held að plön mín hafi aldrei breyst eins mikið og oft eins og síðast liðið ár. Aldrei áður hafa vandamálin virst eins óyfirstíganleg en jafnframt blessast eins stórkostlega eins og þau hafa gert. Ég hef aldrei verið eins logandi hrædd eða orðið eins veik. Ég hef aldrei framkallað eins mikið af myndum eða keypt eins mikið af double teipi og albúmum eins og í síðastliðið ár og ég hef heldur aldrei farið í jafn mörg brúðkaup.
Þegar allt er tekið með þá var 2008 alveg stórkostlegt ár, við höfum hingað til verið lítið bitin af kreppunni og við höfum aldrei verið í eins góðu jafnvægi og eins vel stemmd og nú.
Við erum bæði búin að læra margt nýtt um okkur sjálf 0g höfum fengið frábær tækifæri til þess að átta okkur á styrkleikum okkar og veikleikum, sman og hvort í sínu lagi. Núna vitum við betur hvað við viljum fá út úr lífinu, hvað virkilega skiptir okkur máli og hvað er bara lúxus sem væri (verður) æðislegt, en ekki nauðsynlegt að geta bætt við.

Eftir mánuð eignumst við barn og á morgun hef ég verið gift í ár og daga.

2009 stefnir í að verða svakalegt ár.