sunnudagur, nóvember 15, 2009

Bras og þras á Caprivej!


Á Caprivej hefur öllu verið snúið á hvolf. Stofan er orðin að svefnherbergi og svefnherbergið er orðið stofa. Hildur hefur fengið sinn stað í íbúðinni og það er komið nýtt gólf á íbúðina. Skiljanlega er allt í rúst og næsta skref verður að koma öllu á nýja staði áður en gestahrynan ógurlega hefst.

Hildur getur ekki alveg ákveðið hvort þetta er óskaplega spennandi eða skelfilega ógnvekjandi. Annarsvegar er ótrúlega margt spennandi í seilingarfjarlægð, þá á ég náttúrulega við snúrur, sagir og hamarinn góða. Vandamálið er að það má ekki leika með þetta og er alltaf rifið af henni rétt í þann mund sem hún er að stinga viðkomandi hlut upp í sig. Hinsvegar koma stundum ógurleg læti og foreldrar hennar hafa ekkert rosalega mikin tíma til að leika við hana og dótið hennar er orðið alveg ógeðslega leiðinlegt, enda er hún búin að vera að leika með það í 6 mánuði.
Hildur Inga er s.s orðin 6 mánaða. Hún er farin að sitja alveg sjálf, getur m.a sest upp af gólfinu hjálparlaust, og byrjuð að reyna að skríða. Það fer nefnilega alveg viðbjóðslega í taugarnar á henni að komast ekki áfram. Hún er búin að prófa að toga sig á hnén af maganum, og dilla sér fram og aftur. Það virkaði ekki, svo nú stendur hún á höndum og fótum og reynir að hoppa áfram. Yfirleitt lendir hún á andlitinu og fer að gráta.
Hildur er líka búin að læra að klappa og skella í góm, og gerir bæði í gríð og erg. Merkilegast er þó að hún er farin að borða mat og henni finnst það æði. Hún tekur við öllu þó henni finnist það mis gott. Það sem henni finnst lang best núna er líka það síðasta sem hún smakkaði. Hún fékk nefnilega nautakjötsbita til að jappla á í gær og ætlaði ekki að vilja sleppa honum. Pabbi hennar er mjög stoltur af því.
Stelpan okkar er yfirleitt alltaf kát og glöð, dugleg að leika sér og unir sér vel í einverunni í Danmörku. Reyndar er að koma upp í henni einhver frekja, sem við vonum að sé eðlilegur hluti af þroskanum en ekki eitthvað sem við munum glíma við næstu tuttugu árin. Hún vill endilega borða sjálf og kvartar hástöfum ef hún fær ekki skeið í hendina (reyndar getur hún stungið skeiðinni með mat upp í sig). Hún verður líka voðalega sár ef við skiljum ekki hvað hana vantar og gerum ekki eins og hún vill.2 ummæli:

Snjósa sagði...

svo sæt!
Gaman að sjá og heyra, haha... frekjan komin til að vera:Þ
Komiði heim um jólin?

Anna sagði...

Neibb, erum að bíða eftir tilboðum í janúar.