föstudagur, desember 18, 2009

Orsök og afleiðing.

Hildur Inga elskar dót sem hún má ekki vera með, þar á meðal eru fjarstýringar. Fjarstýringar eru stórhættulegar, eins og Hildur er nú þegar búin að kynnast. Einu sinni var Hildur að dunda sér inni í stofu og tókst að ná sér í sjónvarpsfjarstýringuna. Hún lék sér lengi, lengi við að ýta á takka og eftir dágóða stund tókst henni að kveikja á sjónvarpinu.
Þar sem DVD tækið er tengt við sjónvarpið kom ekki mynd strax heldur bara pínu suð og svo svartur skermur. Þetta var nú eins gott því það þýddi að Hildur var komin í hæfilega fjarlægð þegar henni tókst að ýta á 2 og allt varð vitlaust. Í millitíðinni hafði henni nefnilega tekist að hækka í botn og þess vegna komu mikil læti þegar hún ýtti á takkann. Hildur varð ósköp hrædd, en komst hratt og örugglega í pabbafang og fór því ekki að gráta. Við héldum að þar með væri sagan búin en svo var ekki.
Í morgun sat Hildur á gólfinu, enn og aftur að leika sér að fjarstýringu og að sjálfsögðu tókst henni að kveikja á sjónvarpinu. Það er eins tengt og síðast og þessvegna kom aftur svartur skjár og lágt suð. Eitthvað hefur fyrri reynsla setið í henni því þegar hún heyrðu suðið brá henni svo mikið að hún henti frá sér apparatinu og flýtti sér í næsta fang (sem að þessu sinni var mömmufang).
Aldrei hef ég séð hana svona fljóta að standa upp eins og þá. Hildur Inga hefur sem sagt áttað sig á orsök og afleiðingu.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hún er bráðgáfuð þessi stelpa.

amma

Snjósa sagði...

hún er svo mikið krútt! :)