miðvikudagur, desember 23, 2009

Næstum því bráðum átta mánaða.

Næstum því átta mánaða Hildur Inga bíður eftir jólunum, eða þannig. Hún veit náttúrulega ekkert hvað er í gangi en við hlökkum óskaplega til að halda jólin með henni. Afi og amma eru komin til Danmerkur og pössunarþjónustan hefur verið nýtt til hins ítrasta. Nú þarf nefnilega virkilega á því að halda því Hildur er orðin svo hreifanleg.
Tæplega sjö mánaða gömul byrjaði Hildur að skríða. Hún var búin að reyna mikið og oft með litlum árangri að koma sér áfram og það fór alveg óskaplega í taugarnar á henni. Svo allt í einu byrjaði hún að hreyfa hendur og fætur í takt (krossa). Fyrst var hún eins og illa stillt vélmenni, hæg og höktandi en svo allt í einu kom þetta og hún hefur ekki hætt síðan.
Hildur fer í langar ævintýraferðir úr stofunni og inn í eldhús og maður getur alveg eins átt von á því að mæta henni á leið út af baðherberginu án þess að vita hvernig hún komst þangað. Á baðherberginu er nefnilega stór og skemmtilegur þröskuldur sem gaman er að komast yfir. Hildur er afskaplega ánægð með þessa nýju færni og hún er líka farin að sofa betur á daginn nú þegar hún nær að losa svona vel um orkuna.
Sá galli er þó á að með nýrri færni koma líka nýjar kröfur. Nú er nefnilega ekki eins auðvelt að húkka sér far á milli herbergja því hún getur gert sjálf. Þetta var svoakalega erfitt í byrjun, og stundum þegar við ætluðum að fara á milli herbergja og láta hana koma á eftir heyrðist skaðræðis öskur. Þá sat Hildur Inga á gólfinu þar sem hún hafði verið skilin eftir, öskureið og teygði hendurnar á móti okkur. Þetta er allt að jafna sig núna samt og hún er öruglega búin að steingleyma að hun hafi nokkurtíman verið lítil og bjargarlaus.
Það nýjasta sem Hildur er að æfa sig á þessa dagana er að standa upp og tína sjálf upp í sig mat. Hún er orðin rosalega flink í báðu og þykir alveg óskaplega gaman. Stundum vill samt seíósið ekki fara alla leið í munninn heldur ýtast inn í lófan í staðinn. Það er samt bara ágætt því þá getur hún haft með sér nesti inn í daginn, ótrúlegt hvað hægt er að gera mikið með kreppta hnefa.
Næsta skref hjá Hildi verður nú að halda jólin og opna alla pakkana og svo skreppa til Íslands til að klípa í skottið á kisu og hitta fleiri krakka.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Litla brjúsan :) x FSJ